E. Marlitt

E. Marlitt var höfundanafn þýska rithöfundarins Friederieke Henriette Christiane Eugenie John (1825–1887) en hún þótti á sínum tíma einn frambærilegasti rithöfundur Þjóðverja og voru sögur hennar mjög vinsælar.

Description: https://upload.wikimedia.org/wikipedia/commons/thumb/8/85/Die_Gartenlaube_%281887%29_b_473.jpg/220px-Die_Gartenlaube_%281887%29_b_473.jpgEugenie fæddist í Arnstadt en faðir hennar var nokkuð kunnur málari og þá einkum fyrir portrett málverk.

Guðmóðir Eugenie var prinsessan af Schwarzburg-Sondershausen sem ættleiddi hana árið 1841 og í kjölfarið sendi hana til Vínarborgar þar sem hún var við tónlistarnám í þrjú ár. Þótti hún hafa mikla og góða söngrödd.

En margt fer öðruvísi en ætlað er og Eugenie varð á þessum árum heyrnarlaus og flutti því aftur til Sondershausen þar sem hún bjó næstu ellefu árin sem fylgikona sinnar ættfærðu móður, prinsessunnar.

Þegar heim var komið skrifaðist hún á við vini sína frá Vín sem þóttu bréf hennar bæði skemmtileg og vel stíluð og hvöttu hana því til að skrifa skáldsögur sem hún og gerði. Árið 1863 sneri hún aftur til fæðingarstaðar síns í Arnstadt og hóf að skrifa skáldsögur. Urðu þær á endanum tólf talsins og nutu mikilla vinsælda. Auk sögunnar Líana hefur sagan Gull-Elsa verið gefin út í íslenskri þýðingu.